
Glímufélagið Ármann
Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400
Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951
Hlauparinn, fyrrum fimleikamaðurinn og Ármenningurinn Stefán Pálsson er lagður af stað á heimsmeistaramót í utanvegahlaupum á Spáni þar sem hans helsta markmið er bara að gera sitt besta fyrir hönd Íslands. Stefán byrjaði hlaupaferilinn sinn árið 2021 eftir þriggja ára endurhæfingu eftir meiðsli á baki. Í samráði við lækni byrjaði hann hægt og stutt þriðja hvern dag sem partur af endurhæfingunni. Hægt og rólega fóru hlaupin að lengjast og fjölga, hlaupin hjálpuðu meiðslunum sem varð einskonar gulrót aukast. Hann skráði sig þá í afrekshóp Ármanns í langhlaupum árið 2023 og hefur verið að æfa þar síðan. Stefán segir að hann sé ekki enn alveg búinn að átta sig á því að hlaupin séu meira en bara áhugamál. En segir einnig að hann fann það líklega um það leyti sem hann fór að setja sér alvöru markmið í hlaupum.
Stefán er uppalinn í Ármanni, hann æfði fimleika frá 8 ára aldri, byrjaði í áhaldafimleikum og færði sig svo yfir í hópfimleika. Árið 2012 var hann keppandi og þjálfari meistaraflokks Ármanns í hópfimleikum en þeim ferli lauk síðan árið 2016. „Ég er með virkilega sterkar taugar til hverfisins og klúbbsins. Ég tengi mjög við aðra sem eru tengdir sínum hverfum sem gerir gaman að keppast milli félaga. Uppalinn í Laugardalnum alltaf Ármann, stoltur“. Uppáhalds hlaupaleiðin hans er einmitt trjástígurinn og mölin fyrir ofan grasagarðinn í Laugardal, enda heldur hann mikið upp á hverfið sitt.
Enginn æfingadagur eins, „ég þarf að púsla hverjum degi með vinnu og fjölskyldulífi“. Stefán vaknar að venju 05:45, fer að skokka í 20-45 mínútur, fer síðan í pottinn í klukkutíma, teygjur og gufubað sem endurheimt. Eftir það fer hann í vinnu í 8 tíma og beint heim í fjölskyldustund. Síðan fer hann á æfingu í 2-3 tíma og stefnir heim í kvöldstund með börnunum sínum. „Ég er að reyna að æfa sem atvinnumaður núna og aðlaga dóttur mína í leikskóla, nóg að gera“ segir Stefán.
Aðspurður um hvað hann geri ef hlutirnir ganga illa, eða ekki eins vel og hann hafði ætlað eða vonað segir hann „Þetta er langhlaup, allt partur af því að þroskast til að gera betur. Hlutirnir mega ekki alltaf vera of alvarlegir“. En segir einnig að hann hugsi um andlegu hliðina með því að halda sér rólegum. Hann treystir því að hann sé búinn að leggja inn alla vinnuna fyrir keppnina og er einbeittur þegar kemur að keppninni. Lengri markmið Stefáns eru heldur óljós eins og er, hann stefnir á eitt erlent hlaup 2026, en helsta markmiðið núna er að halda sínu sæti í landsliðinu.
Stefán hefur lent í allskonar fyndnum atvikum í hlaupum á sínum ferli en í sumar hljóp hann hring á Reyðarfirði sem gerði allt vitlaust hjá hlaupahópnum þar, Afrekshópur UMFÍ Reyðarfirði, því enginn mun líklega ná kórónunni þar á næstunni, sem sagt ná besta tímanum á Strava appinu. „Góður vinur minn uppalinn í Langholtshverfi en býr á Reyðarfirði hvatti mig til þess að hlaupa hringinn hratt og stríða einhverjum þar, líklega þeim sem átti hraðasta tímann. Ég eignaðist húfu merkta hlaupahópnum eftir gjörninginn og ætla að láta fleiri hlaupaleiðir vera í staðinn“.
Ef hann gæti gefið ungum sjálfum sér eitt ráð fyrir framtíðina þá væri það að halda í markmiðin sín og stöðugleikann og byrja að æfa hlaup fyrr. Við hjá Ármanni erum virkilega stolt að eiga íþróttamann eins og Stefán innan félagsins og hlökkum til að fylgjast með honum taka að sér fleiri verkefni í framtíðinni. Hægt er að fylgjast með Stefáni á Instagramminu hans @stebbz en hann er duglegur að taka upp og sýna frá hlaupum og æfingum. Einnig er hægt að fylgjast með á instagrömmum félagsins @glimufelagidarmann og @armannfrjalsar. Áfram Stefán, áfram Ísland og áfram Ármann!
Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400
Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951