Saga félagsins

Ágæti lesandi,

Glímufélagið Ármann var stofnað 15. desember árið 1888 á svonefndum SKELLI, sem var túnblettur við Rauðará í Reykjavík. Stofnendur Ármanns voru tæplega 30 ungir áhugamenn um glímu.
Glíma var á þeim tíma mjög vinsæl og var enginn maður með mönnum nema að hann kynni "réttu tökin" og gæti sýnt það og sannað þegar að mikið lág við. Orðið glíma er trúlega fyrsta nýyrðið á Íslandi, en svo nefnist þessi gamla fangbragðaíþrótt sem var fundin upp af íslendingum fyrir mörgum öldum. Við Ármenningar erum því mjög stoltir af, að félag okkar skuli vera kennt við þessa fornu íslensku íþrótt og þó svo að hún eigi mjög í vök að verjast um þessar mundir í samkeppni við aðrar fangbragðaíþróttir erum við sannfærðir um, að vinsældir glímu munu aukast á ný, því svo segir saga hennar á umliðnum öldum.

Nokkru eftir stofnun Glímufélagsins Ármanns fóru Ármenningar að leggja stund á aðrar íþróttagreinar, t.a.m. sund, frjálsar íþróttir, fimleika, skíði, róður, hnefaleika, lyftingar, þjóðdansa, judo, tækvondo, körfuknattleik, handknattleik og knattspyrnu. Fyrir stuttu var gerður samningur um samstarf við Knattspyrnufélagið Þrótt um körfu- og handknattleik og að knattspyrna verði alfarið í höndum Þróttar fyrir okkar svæði.

Í gegnum "aldirnar" (19. 20. og nú 21. öldin) hafa Ármenningar haft frábæra afreksmenn innan sinna raða í nær öllum ofangreindum íþróttagreinum. Alls ómögulegt er að telja allan þann fjölda upp hér á þessari síðu, en fyrir áhugasama er rétt er að vísa til bókar okkar ARMANN í 100 ÁR sem hægt er að nálgast hjá framkvæmdastjórn Ármanns. Vert er að benda á, að vel yfir þrjátíu Ármenningar hafa tekið þátt í Olympíleikum og getur ekkert annað íþróttafélag státað af slíkum fjölda. Frægustu nöfnin á þeim lista eru Bjarni Friðriksson og Guðrún Arnardóttir.

En íþróttafélag er ekki og á ekki að vera eingöngu fyrir afreksmenn, eins og ýmsir vilja fullyrða. Að sjálfsögðu kappkostar hvert íþróttafélag að hafa sem flesta afreksmenn innan sinna raða, en afreksstefna Ármanns hefur ávallt verið mjög hófsöm og í öllu starfi Ármanns er ekki eingöngu einblínt á afrekin, þó svo að vitað er að þau auka bæði ímynd og félagslegan styrk. En staðreyndin er sú, að breiður hópur félagsmanna er engu að síður minna nauðsynlegur fyrir íþróttafélag sem tekur hlutverk sitt alvarlega sem félag fyrir Reykvíska æsku. Við Ármenningar tökum heilshugar orð Þórólfs Þórlindssonar prófessors "að besta forvörnin gegn námsfalli, fíkniefnum og hrörnun er iðkun íþrótta". Þessvegna höfum við Ármenningar kappkostað að gefa sem flestum möguleika á, að sunda íþrótt við sitt hæfi, við bestu aðstæður fyrir hóflegt verð.

Grímur Valdimarsson
Fyrrum formaður Ármanns
Glímufélagið Ármann

Íþróttamiðstöðin Laugaból
Engjavegur 7, 104 Reykjavík
armann@armenningar.is
Sími: 412 7400

Kennitala: 420169-0359
VSK Númer: 22951

Flýtileiðir
Félagið
Fylgstu með
.uk-breadcrumb > li > span {color: #fff!important;}